Almenningssund

c_documents_and_settings_administrator_desktop_geymt_a_myndir_flakkara_2007_sund_8_p8050201.jpg Bíddu smá það er alveg að losna. Sko, væna mín, þú verður að muna númerið þitt. Og þú kemur STRAX uppúr þegar þitt númer er kallað. Grunna laugin var full af krökkum. Allir hoppuðu og skvettu. Færri í djúpu, en maður vill helst ekki synda þangað. Ég heyrði af stelpu sem missti eitthvað og kafaði eftir því en hún synti svo nálægt stjörnunni að hún sogaðist niður í botn og var næstum druknuð. Nú kemur sundlaugarkonan alveg æf. Strákar, já þið þarna, kíkið á númerin ykkar það er búið að kalla ykkur upp. Oft! Af stað, uppúr núna. Ykkar tími löngu búinn. Skammirnar að láta reka sig uppúr. Þeim virðist finnast það gaman. 

Okkur finnst eins og að við eigum langa sundlaugamenningu en þó sagnir séu af heitum laugum frá elstu tíð er það allt annað en að almenningur hafi haft kost á því að æfa sund eða haft aðgang að heitu vatni til makindabaða. Sú saga nær yfir u.þ.b. 70 ár. Ofangreind minning er 40 ára.  

Á síðu Sundfélags Hafnarfjarðar, sh.is, er grein um sund og sundkennslu eftir Högna Sigurðsson, sem birt var í “Skólapiltinum”- innanskólablaði Flensborgarskóla, árið 1894. Í þeirri grein er margt fróðlegt, m.a.: “Það er sagt að fyrir rúmum 70 árum hafi ekki verið fleiri en svo sem 6 menn á öllu landinu, sem voru sjálfbjarga ef þeir lentu í polli, sem þeir náðu ekki niðrí.” Og í Sögu FH í 75 ár eftir Björn Pétursson, bls. 2, er vitnað í skólaskýrslu fyrir veturinn 1894-5 þar sem kemur fram að kennd hafi verið m.a.: “Glímur og sund á þurru.” Sundlaug var byggð í Hafnarfirði 1943 sem útisundlaug með upphituðum sjó.

 

Hafnfirðingar eru í maí 2007, 24.231. Þeir fóru 373.780 sinnum í sund í sundlaugar Hafnarfjarðarbæjar á árinu 2006, skólasund og ferðir sundfélaga meðtalin. Miðað við það þá er merkilega lítið af dægurefni um sundstaði, sundferðir, aðstöðu, gufur, sundföt ofl. Allir eiga “sína” laug, sínar venjur í gufu og potta. Mér þykir mjög fróðlegt að heyra hvernig aðrir vilja hafa það í sundlaugarferðum sínum. Hvað syndir meðalmaðurinn í sundferðinni? Hversu lengi í potti og gufu? Er allt gott sem hefur verið gert? Má gagnrýna?  Er hægt að bera almenningssundmenningu okkar í dag saman við aðrar þjóðir a.m.k. aðrar Evrópuþjóðir? Hvaða hlutfall er á syndu fólki á Íslandi m.v. Evrópu?

 

 Er sundlaugarferð til heilsueflingar, þrifa, samveru, slökunar, skemmtunar eða allt í senn?

Sundlaugarnar okkar hafa hver sinn karakter eftir því hvenær og hvernig þær eru byggðar, eftir staðsetningu og eftir stjórnendum. Sumt er e.t.v. einstakt eins og að í sundlauginni á Hvammstanga er stemning í frítt jólasund á aðfangadag og öllum boðið konfekt. Í Sundhöll Hafnarfjarðar eru “fullorðinstímar” milli kl. 19 og 20 á þriðjudögum og fimmtudögum og “kvennatímar” á sömu dögum milli kl. 20 og 21. Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði hefur innilaugina heitari en venja er fyrir litlu börnin á laugardögum og sunnudögum, svo eitthvað sé nefnt.

 

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband